Hlutabréfamarkaðurinn hefur verið að skila sér úr fríi síðustu dagana. Hlutabréf hafa hækkað nokkuð og stemmingin á markaði er mun betri en fyrir frí, segir í fréttayfirliti VBS fjárfestingarbanka.

"Það er greinilegt að fjármagnið er aftur farið að leita inná markaðinn og er það gott. Þrátt fyrir þessar hækkanir síðustu vikurnar eru ennþá tækifæri á markaðnum. Bankarnir eru ennþá einna bestu kostirnir en vert að fylgjast með Actavis, Bakkavör og Mósik að auki," segir í fréttayfirlitinu.

Þar er bent á að það styttist í skráningu Exista á markað og sagt markaðurinn bíði spenntur eftir skráningarverði.

"Það mun líka hafa mikil áhrif á KB-banka og hluthafa þar vegna þess að þeir eiga stóran eignarhlut í Exista og munu greiða stóran hluta hans út til hluthafa. Það er því ljóst að KB mun innleysa góðan hagnað við skránigu og greiðslu arðs til hluthafa sinna," segir í fréttayfirlitinu. Þar segir ennfremur:

"Það sem er áhugavert við það mál er að miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir stefnir í að þrátt fyrir útgreiðslu bréfanna sem arð þá verður eigið fé KB svipað fyrir og eftir arðgreiðslu þar sem verð Exista hlutarins er mun lægra skráð í bókum KB en áætlað markaðsvirði við skráningu. Arðgreiðsla til hluthafa uppá c.a 25 milljarða í formi bréfa í Exista ætti því ekki að hafa teljandi áhrif á gengi KB."