Ekki liggur fyrir hvað tekur við eftir að sex mánaða greiðslufrestur sem fyrirtæki og einstaklingar gátu sótt um rennur út hjá bönkunum. Í mars gengu lífeyrissjóðir og bankarnir frá samkomulagi um að fólk og fyrirtæki gæti frestað afborgunum lána um sex mánuði en mest er hægt að fá greiðslufrest til áramóta.

Samkvæmt svörum frá Arion banka, Landsbankanum og Íslandsbanka hafa enn ekki átt sér stað viðræður um samræmdar aðgerðir eftir að samkomulagið rennur út.

Arion banki segir að fljótlega þurfi að fara að huga að því hvað taki við um áramót enda sé nokkuð ljóst að ástandið muni vara fram á næsta ár. Fyrst þurfi hins vegar að fá frekari reynslu af úrræðum á borð við stuðnings- og viðbótarlán og betri sýn á hvernig faraldurinn og efnahagslífið þróast nú í haust.

Í svari Íslandsbanka segir að hvert mál sé metið út af fyrir sig, til að mynda með hliðsjón af úrræðum á á borð við stuðningslán og viðbótarlán og öðrum úrræðum sem hentað geta hverju sinni. Þá hvetja bankarnir viðskiptavini í fjárhagserfiðleikum að hafa sem fyrst samband.