Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir nýtt frumvarp viðskiptaráðherra og telur að verði það að lögum þá fái bankarnir frítt spil á næstu árum. Frumvarpið tekur til breytinga á lögum um fjármálafyrirtæki og hefur það verið í smíðum í viðskiptaráðuneytinu í tæpt ár. Í áliti sem FA hefur skilað til viðskiptanefndar Alþingis er gagnrýnt að í frumvarpinu sé fátt sem takmarki hversu lengi bankarnir geti átt fyrirtæki í atvinnurekstri eða hvenær þau skuli seld segir í tilkynningu.

Því sé nauðsynlegt að setja bönkunum mun þrengri ramma um inngrip í samkeppnismarkaði.

Í verklagsreglum fjármálafyrirtækja er sagt að „stefna skal að því að selja eignarhluti í fyrirtækjum eins fljótt og hagkvæmt er.“  Þetta orðalag er ekki  fullnægjandi. Óeðlilegt er að hagkvæmnissjónarmið banka séu sett ofar öðrum sjónarmiðum. Almannahagsmunir hljóta að þurfa að koma þarna til álita – helst með skýrum leikreglum sem sett eru af stjórnvöldum. Samkeppniseftirlitið hefur í auknum mæli sett bönkum takmarkanir vegna eignarhalds í fyrirtækjum. Mikilvægt er að Samkeppniseftirlitið fái auknar heimildir til að fylgja slíkum málum eftir.