*

fimmtudagur, 24. september 2020
Innlent 9. júlí 2019 11:31

Bankarnir seldir á næstu tveimur árum

Stjórnarformaður Bankasýslunnar segir að hægt yrði að koma bönkunum í nýjar hendur á næsta ári ef söluferlið hæfist í ár.

Ritstjórn
Lárus L. Blöndal er stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins sem á næstu vikum mun birta skoðun sína á hvort og þá hvernig sölu ríkisbankanna skyldi hátta.
Haraldur Guðjónsson

Lárus L. Blöndal stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins kveðst sannfærður um að nú sé betri tími til sölu á ríkisbönkunum en á hápunkti hagsveiflunnar fyrir þremur árum að því er Morgunblaðið segir frá.

Segist hann bjartsýnn á að hægt væri að hefja söluferli bæði Landsbankans og Íslandsbanka strax í ár, og koma þeim í hendur nýrra aðila strax á næsta ári, það er ef það verður niðurstaða skoðunar bankasýslunnar sem niðurstöðu má vænta úr á næstu vikum og jafnframt vilji stjórnvalda.

„Þetta tekur allt tíma og þá ekki síst fyrir stjórnvöld sem þurfa að vera reiðubúin að stíga þau skref sem þarf að stíga. Við förum ekki út í það að vinna umfangsmikla tillögu án þess að vita að menn séu að komast á þann stað að hlíta þeirri tillögu. Sérstaklega ef hún yrði í þá átt að selja bankana,“ segir Lárus sem neitaði því að hafa áhyggjur af því að ekki fyndust kaupendur að bönkunum.

„Að mínu mati eru bankarnir tilbúnari til sölu núna þannig að við erum ekki búin að missa af neinu í þessum efnum heldur þvert á móti.“

Pólíski viljinn ræður

Þó Lárus segi að þeir fari ekki að vinna umfangsmikla tillögu um bankasölu án þess að menn, þá væntanlega stjórnvöld, séu að komast á þann stað að láta verða af henni, þá er ferlið þannig að ráðherra verði að taka afstöðu til hennar, og þá hve stór hluti bankanna verði seldir. Þetta ráðist allt af hinum pólítíska vilja.

„Það verður síðan að koma í ljós hver niðurstaða okkar verður. Ef hún verður sú að hefja söluferli þá þarf samþykki ráðherra. Það er framkvæmanlegt að hefja söluferli á bönkunum á þessu ári og tímalína okkar miðar við að hægt verði að framkvæma tillögu um sölu á bönkunum, ef til hennar kemur, þannig að söluferlinu ljúki á næsta ári.“