Lausafjáráhætta bankanna tengist að mestu hugsanlegum úttektum innlána. Rúmlega 80% af innstæðum hjá bönkunum eru óbundnar og því þurfa þeir að gera ráð fyrir að geta staðið skil á stórum hluta innstæðna á hverjum tíma.

Þetta kemur fram í skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birt var í morgun. Í skýrslunni er meðal annars fjallað um fjármögnun bankanna og þar kemur fram að langstærstur hluti fjármögnunar viðskiptabankanna eru innlán. Fram kemur að samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu þoli bankarnir umtalsverðar úttektir innlána vegna mikilla tryggra lausafjáreigna.

„Mikilvægt er að bankarnir séu viðbúnir miklum úttektum innlána með tilheyrandi áhrifum á lausafjárstöðu og flæði á gjaldeyrismarkaði. Lausafjáreignir þurfa því að vera umtalsverðar og vægi bundinna innlána þarf að aukast,“ segir í skýrslu Seðlabankans.

Vægi innlána af heildarfjármögnun hefur þó farið heldur minnkandi og er nú tæplega 2/3 hlutar fjármögnunar. Rúmlega 80% af innstæðum hjá bönkunum eru óbundnar og því þurfa þeir að gera ráð fyrir að geta staðið skil á stórum hluta þeirra á hverjum tíma. Önnur lántaka bankanna er enn hlutfallslega lítil og víkjandi lán nema einungis um 2% heildarfjármögnunar bankanna.

Seðlabankinn segir að yfirlýsingar ríkisstjórna um að innlán á Íslandi séu að fullu tryggð og forgangur innstæðna við gjaldþrotaskipti verða áfram Þrándur í Götu markaðsfjármögnunar bankanna. Þá sé ljóst að að erlend fjármögnun bankanna verði áfram torsótt. Líklegt sé að erlend fjármögnun verði fyrst fáanleg hjá fjölþjóðlegum bönkum eða stofnunum og síðar á markaði í kjölfar lánshæfismats. Hækki lánshæfismatseinkunn ríkissjóðs verði fýsilegra að sækjast eftir slíku mati.

Þá segir Seðlabankinn að í gildi séu gjaldeyrishöft og því geti innlánseigendur ekki flutt fjármuni sína úr landi. Innlán megi hins vegar flytja á milli innlánsstofnana eða færa í aðra eignaflokka, s.s. markaðsverðbréf o.fl.

„Við losun haftanna þurfa bankarnir að vera viðbúnir þeim möguleika að hluti innstæðna, einkum innstæður erlendra aðila, verði færðar úr landi,“ segir í skýrslu Seðlabankans.

„Í lok september sl. áttu erlendir aðilar um 9% allra innstæðna hjá viðskiptabönkunum. Stærstur hluti þessara innstæðna var í íslenskum krónum. Fyrri áfangi að losun gjaldeyrishafta beinist m.a. að þessum eignum, þ.e. að hleypa þeim út í áföngum eða koma í hendur innlendra eða erlendra aðila sem vilja binda þær í fjárfestingu í innlendu atvinnulífi til langs tíma.“

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)