Mervyn King bankastjóri Englandsbanka varðist ásökunum í dag um pólítsk afskipti eftir að peningastefnunefnd bankans gaf sterklega til kynna að hún sé sammála efnahagsáætlun stjórnvalda.

Gagnrýnin snýr að verðbólguspá bankans frá því í maí síðastliðnum. Adam Posen, einn nefndarmanna, hefur sagt að hann og að minnsta kosti einn annar í nefndinni hafi haft af því áhyggjur að orðalag í skýrslunni væri of pólitískt. Við útgáfu skýrslunnar sagði King að ný stefna stjórnvalda feli í sér sterk viðbrögð til að draga úr fjárlagahalla Bretlands, að því er segir á vef Wall Street Journal.

King sagði í dag að hann hafi ávallt reynt að forðast það að fjalla um fjárhagsstefnu stjórnvalda. Hann sagði að aðrir seðlabankastjórar í heiminum hafi mun oftar en hann talað um stefnu stjórnvalda.