B Reykjavík ehf., sem heldur utan um rekstur skemmtistaðarins Bankastræti Club, tapaði 5,2 milljónum króna árið 2021. Taka skal fram að staðurinn opnaði um mitt síðasta ár.

Rekstrartekjur Bankastræti Club, sem er til húsa á Bankastræti 5 þar sem B5 var áður, námu 67,2 milljónum króna en þar af vörusala 62,2 milljónir og 5 milljónir féllu undir liðinn styrkir.

Rekstrargjöld B Reykjavíkur námu 72 milljónum í fyrra. Kostnaðarverð seldra vara var 23,7 milljónir. Laun og launatengd gjöld námu 12,8 milljónum en eitt ársverk var skráð á síðasta ári. Þá voru 35,4 milljónir gjaldfærðar undir liðnum annar rekstrarkostnaður.

Eignir félagsins voru bókfærðar á 2,9 milljónir króna í lok síðasta árs . Eigið fé var neikvætt um 4,7 milljónir.

Lykiltölur B Reykjavík ehf. í milljónum króna

2021
Rekstrartekjur 67,2
Tap 5,2
Eignir 2,9
Eigið fé -4,7

Birgitta Líf Björnsdóttir, áhrifavaldur og markaðsstjóri World Class, fer fyrir Bankastræti Club. Í lok síðasta árs átti Birgitta Líf 33,3% hlut í félaginu.

Verktakafyrirtækið RK bygg, í eigu Þórlaugar Ólafsdóttur, og Urriðafoss ehf, félags í eigu Sverris Þórs Gunnarssonar, eiga einnig hvor um sig þriðjungshlut í B Reykjavík. Í ársreikningi Urriðafoss segir að rekstur félagsins felist í sölu á tóbaki og útleigu fasteigna.