Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir stofnunina hafa rætt við Landsbankann vegna sölu hans á tæplega þriðjungshlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun. Engin áform séu hins vegar um að aðhafast frekar í málinu. Þetta kemur fram í Kjarnanum .

Greint var frá því í gær að engin athugun hefði farið fram á vegum fjármálaráðuneytisins á sölunni, en það kom fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur. Sagði Bjarni að Bankasýsla ríkisins annaðist samskipti ríkisins við fjármálafyrirtæki sem ríkið eigi eignarhluti í, og það sé því hlutverk hennar að meta hvort salan hafi samrýmst eigenndastefnunni.

Jón Gunnar segir jafnframt í samtali við Kjarnann að betra hefði verið ef hluturinn í Borgun hefði farið í opið söluferli í stað þess að vera seldur til valinna aðila bakvið luktar dyr, án þess að öðrum áhugasömum hefði gefist tækifæri til þess að bjóða í hlutinn.