„Við teljum æskilegt að uppgjör séu birt,“ segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, vegna þeirrar ákvörðunar Arion banka að birta ekki opinberlega ársfjórðungsuppgjör bankans fyrir tímabilið janúar til mars, eins og greint var frá í Viðskiptablaðinu í síðustu viku.

NBI hefur nú þegar birt uppgjör fyrir tímabilið og reiknað er með að Íslandsbanki geri hið sama í byrjun næsta mánaðar. „Gagnsæi er ákjósanlegt að okkar mati og því tíðar sem uppgjör eru birt því betra.“ Bankasýslan fer með 13% hlut í Arion banka og skipar einn stjórnarmann.