Jón Þórisson, nýráðinn framkvæmdastjóra VBS fjárfestingabanka, segir nýja stefnumótun VBS til ársins 2008 vera sð sinna aðeins þeim verkefnum sem bankinn er bestur eða næstbestur í.

"Vegna smæðarinnar getum við ekki tekið að okkur öll viðfangsefni. Við getum ekki sagt eins og Hard Rock: love all, serve all. Við verðum að velja okkur viðfangsefnin. Við erum búnir að skilgreina þá þætti sem við erum bestir eða næstbestir í. Við erum góðir í ákveðnum hluta lánsfjármögnunar, við erum góðir í miðlun hlutabréfa og skuldabréfa, og við erum góðir í eignastýringu," segir Jón í viðtalinu.

Einnig kemur fram að VBS muni einbeita sér að íslenskum markaði vegna þeirra tækifæra sem þar eru að mati bankans.

Um samanburð á VBS um þessar mundir og Kaupþingi fyrir tæpum áratug segir Jón meðal annars í viðtalinu:

"Það er klárt mál að aðild Fjárfestingarfélags sparisjóðanna, sem nýrrar kjölfestu, minnir á samstarf Kaupþings og sparisjóðanna á sínum tíma. Við erum afar metnaðarfull og ætlum okkur stóra hluti. Við ætlum auðvitað að vinna vel fyrir okkar hluthafa. Ég útiloka ekki að við náum sambærilegum árangri og Kaupþing, þó að það sé ekki endilega markmiðið. Það eru ótal tækifæri fyrir okkur til að vaxa og þroskast, en hvernig við vöxum og þroskumst verður einfaldlega að koma í ljós."

VIðtal við Jón Þórisson birtist í Viðskiptablaðinu í dag.