Nýtt lagafrumvarp 15 þingmanna undir forystu Árna Þórs Sigurðssonar kann að hafa mikil áhrif á störf íslenskra kjarneðlisfræðinga og útiloka þá frá störfum erlendis. Þar segir m.a.: „Enginn íslenskur ríkisborgari eða maður sem hefur varanlegt dvalarleyfi á Íslandi, erlendur ríkisborgari sem er í þjónustu íslenska ríkisins eða dvelst innan hins friðlýsta íslenska svæðis má búa til kjarnorkuvopn af neinu tagi, afla sér slíks vopns eða hafa það undir höndum, veita aðstoð, hjálp eða atbeina til þess að nokkur búi til, afli sér eða hafi undir höndum kjarnorkuvopn af neinu tagi. Brot á lögunum varða allt að tíu ára fangelsi.“

Þetta gæti haft áhrif á störf íslenskra kjarneðlisfræðinga erlendis þar sem skil milli ýmissa þátta í notkun kjarnorku í friðsamlegum og hernaðarlegum tilgangi geta verið mjög óljós.