Baráttan um yfirráð á Norðurheimskautinu gæti orðið harkaleg og orsakað ósætti og jafnvel átök milli þjóða en eins og kunnugt er eru siglingaleiðir smátt og smátt að opnast á Norðurskauti.

Leiðtogar NATO hittast á málfundi í Reykjavík í dag til að ræða framtíð svæðisins en lönd á borð við Bandaríkin, Rússland, Kanada, Danmörk, Bretland og Kína gera öll kröfu um yfirráðasvæði á Norðurheimskautinu.

En það eru ekki bara siglingaleiðir sem kunna að verða deiluefni í framtíðinni heldur er talið líklegt að á ákveðnum svæðum sé að finna olíu og gasauðlindir og nokkuð ljóst að fyrrnefndar þjóðir vilja ekki gefa þær upp á bátinn.

Breska blaðið The Daily Telegraph hefur eftir Lee Willet, hernaðarmálasérfræðing hjá Royal United Services hugveitunni í Lundúnum, að um leið og siglingaleiðir á svæðinu fara að opnast að ráði munu herskip þjóðanna fjölmenna á svæðið.

„Um leið og mikið af herskipum dvelja á Norðurheinmskautinu, frá hinum ýmsu þjóðum sem hugsanlega gera allar kröfu um yfirráð á svæðinu, mun ríkja mikil spenna á milli þeirra og það má lítið út af bera,“ segir Willet.

Þá segir Telegraph að hernaðarsérfræðingar taki almennt undir orð Willet og telji að um leið og ísinn á Norðurheimskautinu bráðni vaxi spenna milli þeirra ríkja sem telja sig hafa yfirráð á svæðinu.