Barclays banki greiðir 298 milljónir dala, jafnvirði rúmlega 35 milljarða íslenskra króna, samkvæmt samkomulagi sem bankinn hefur gert við bandarísk yfirvöld. Bankinn var ákærður fyrir að brjóta á lögum er varða viðskipti við Kúbu, Íran, Libýu, Súdan og Búrma á árunum 1995 til 2006. Bandarísk lög banna viðskipti við löndin.

Helmingur upphæðarinnar mun renna til bandarískra yfirvalda. Hinn hlutinn greiðist vegna samkomulags við ákæruvaldið í New York. Samkomulagið er bundið samþykkt dómara.

Samkvæmt dómsgögnum játa Barclays-menn brot sín og segjast taka ábyrgð á gjörðum sínum. Í frétt BBC um málið segir að Barclays banki hafi allt frá árinu 1987 auðveldað og falið viðskipti fyrir ríki sem ekki hafa leyfi til að stunda viðskipti í Bandaríkjunum.

Fyrr í mánuðinum kom tilkynning frá bankanum þar sem sagt var 194 milljónir dala hefðu verið teknar frá til að greiða fyrir lendingu í málinu.