Breski viðskiptabankinn Barclays hyggur á opnun netreikninga í Bandaríkjunum á næstu misserum.

Frá þessu er greint í breska blaðinu Financial Times (FT) í dag en þetta er í fyrsta sinn í tæp 30 ár sem Barclays tekur beinan þátt í viðskiptabankastarfsemi í Bandaríkjunum.

Í frétt FT kemur fram að bankinn muni hefja markaðsstarfsemi frá og með deginum í dag og bjóða íbúum í Bandaríkjunum aðgang að netreikningum. Í fréttinni kemur fram að boðið verði upp á opna netreikninga en jafnframt lokaða reikninga til fimm ára með 1,75% vöxtum.

Með þessu hyggst Barclays tryggja sér aukið lausafé og aukinn stöðugleika, þá sérstaklega til þess að byggja upp greiðslukortaþjónustu sína á alþjóðavísu. Samkvæmt heimildum FT stendur þó ekki til að opna útibú í Bandaríkjunum.

Icesave reikningar gamla Landsbankans eru Íslendingum vel kunnir, en hér er um svipaða reikninga að ræða þó skilmálar og vextir séu með öðru sniði.