Barclays vinnur að því þessa dagana að undirbúa áætlun sem miðar að því að legga fram nýtt og betra yfirtökutilboð í ABN Amro, sem mun innihalda ákveðið hlutfall peninga. Frá þessu greinir Financial Times í gær, en í yfirtökutilboði breska bankans sem ABN samþykkti 23. apríl síðastliðinn var einungis gert ráð fyrir því að fjármagna yfirtökuna á ABN með því gefa út ný hlutabréf í Barclays. Stjórnendur Barclays vildu ekki tjá sig um málið, að því er fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins (BBC).

Barclays gerir sér grein fyrir því að hann mun líkast til þurfa að endurskoða tilboð sitt í ABN til að sigra RBS-hópinn - Royal Bank of Scotland, Fortis og Santander - í baráttunni um að ná yfirráðum í hollenska bankanum. Tilboð RBS-hópsins var um ellefu prósentum hærra heldur en tilboð Barclays og einnig var gert ráð fyrir því að það yrði fjármagnað að 79% hluta með peningum. Hins vegar verða stjórnendur Barclays einnig að hafa í huga viðvaranir sumra hlutahafa bankans undanfarin misseri um að það væri mjög óráðlegt að leggja fram hærra tilboð í ABN, en þeir óttast að verðstríð á milli Barclays og RBS-hópsins yrði til þess að skaða bankann.

Stjórnendur Barclays telja sig vera að koma til móts við þá hlutahafa sem hafa lagst gegn því að bankinn geri hærra tilboð í ABN, með því leggja það til að breyta tilboðinu í þá veru að koma inn með peninga í stað þess að fjármagna það einvörðungu með nýjum bréfum í Barclays. Þetta hefur Financial Times eftir heimildarmönnum sínum sem vel þekkja til málsins.

Leita að samstarfsaðila?
Það er ekki búist við því að Barclays taki ákvörðun um að endurskoða tilboð sitt fyrr en það verður ljóst hvort yfirtökutilboð RBS-hópsins getur orðið að veruleika - en það veltur á því hvort hópnum takist að leysa deiluna við Bank of America (BofA) um framtíð LaSalle, sem er bandarískur smásölubanki í eigu ABN. Hollenski bankinn hafði samþykkt að selja LaSalle til BofA fyrir 21 milljarð Bandaríkjadala sem hluta af samkomulaginu við Barclays, en hluthafar ABN snérust síðan gegn þeirri sölu. Það er núna undir hollenskum dómstól komið hvort hluthafar ABN fái tækifæri til að greiða atkvæði um söluna á LaSalle og má vænta úrskurðar þess efnis um miðjan júlímánuð. Ef dómstóllinn úrskurðar hluthöfum ABN í hag er talið næsta víst að stjórnendur Barclays telji sig knúna til að leggja fram nýtt tilboð í ABN Amro.

Sérfræðingar telja að með því að koma inn með peninga í yfirtökutilboð sitt í ABN gæti Barclays tekist að höfða til þeirra vogunarsjóða sem eiga stóra hluti í bankanum. Í frétt Dow Jones-fréttastofunnar í gær er hins vegar á það bent að það sé ólíklegt að öðrum en skammtímafjárfestum á borð við vogunarsjóði þykji slíkt tilboð sérstaklega spennandi í ljósi þess hversu mun betra tilboð RBS-hópsins er. Af þeim sökum hafa sumir greiningaraðilar velt því fyrir sér hvort Barclays muni íhuga að leita að samstarfsaðila sem myndi gera bankanum kleift að leggja fram verðmætara tilboð heldur en það sem RBS-hópurinn hefur gert.