Eigandi Leeds, Ken Bates, hefur kært fyrrum félag sitt, Chelsea, til Knattspyrnusambands Englands, ensku úrvalsdeildarinnar og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA) fyrir að hafa brotið reglur í samningaviðræðum við þrjá unga leikmenn Leeds. Bates heldur því fram að Chelsea hafi átt í ólöglegum viðræðum við Michael Woods, Tom Taiwo og Danny Rose, og tekist í kjölfarið að næla í þá tvo fyrstnefndu. Chelsea tókst ekki að kaupa Danny Rose.

"Þessi deila snýst, að mínu viti, um blygðunarlaus brot á þeim reglum sem gilda í ensku knattspyrnunni," sagði Bates. Hann bætti við: "Við viljum fá greitt fyrir þá vinnu sem við höfum lagt í þessa leikmenn og það tækifæri sem okkur er með þessu gengið úr greipum." Knattspyrnusambandið sagði, í samtali við BBC, að ekki hefði borist formleg kæra frá Leeds. Talsmaður þess sagði hinsvegar að ef slík kæra bærist yrði hún tekin alvarlega og til fullrar meðferðar.

Sektir duga ekki

Bates liggur ekki á skoðunum sínum um hvernig refsa beri Chelsea, verði félagið fundið sekt um þessi meintu brot. "Eigandi Chelsea, Roman Abramovich, er það ríkur að sektir hafa ekkert að segja. Að okkar mati væri betur við hæfi að draga stig frá félaginu, banna því að skrá nýja leikmenn og vísa því úr Evrópukeppni," segir hann.

"Ákveðnar reglur gilda og ef einhver neitar ítrekað að fylgja þeim, af hverju á þá sá hinn sami að fá að leika í þessum mótum?" spyr Bates. Hann rifjar upp þegar Chelsea, knattspyrnustjóri félagsins José Mourinho og Arsenalleikmaðurinn Ashley Cole fengu metsektir á síðasta ári. Chelsea var sektað um 300.000 pund (40 milljónir króna), Cole um 100.000 pund (rúmar 13 milljónir króna) og Mourinho um 200.000 pund (27 milljónir króna). Þessir aðilar voru fundnir sekir um að hafa brotið reglur deildarinnar með því að hittast á leynifundi án vitneskju Arsenal á veitingastað í London 27. janúar. Í kjölfarið versnuðu samskipti Chelsea og Arsenal, en félögin hófu þó nýlega löglegar samningaviðræður um sölu á Cole.