Fjárhagsstaða sveitarfélaga batnaði heilt yfir á árinu 2013. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Á síðasta ári jukust tekjur sveitarfélaga að meðaltali um 6,7%. Þá nam hagnaður af rekstri þeirra samtals 576 milljónum króna, samanborið við 55 m.kr. tap árið áður og 274 m.kr. tap árið 2011. Á síðasta ári varð þvi hagnaður af rekstri sveitarfélaga í fyrsta skiptið síðan 2010. Mestu munar um stórbætta rekstrarafkomu stærstu sveitarfélaga landsins, en Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður og Akureyri skiluðu samtals um 12 ma.kr. hagnaði á síðasta ári, samanborið 5,5 ma.kr. tap árið 2012.

Skuldastaða sveitarfélaga batnaði einnig á síðasta ári. Skuldahlutfall sveitarfélaga lækkaði úr 193% árið 2012 í 167% í fyrra. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum má hlutfallið ekki vera hærra en 150% og ef þróun síðasta árs heldur áfram má vænta þess að hlutfallið verði komið niður fyrir það hlutfall á yfirstandandi ári. Greiningardeildin bendir þó á að skuldastaða þriggja skuldsettustu sveitarfélaga landsins stóð ýmist í stað eða hækkaði á síðasta ári.

Þá hefur fjárfesting sveitarfélaga nánast staðið í stað frá 2011. Skýrist það af aukinni áherslu á bættan rekstur og niðurgreiðslu skulda síðustu ár. Fjárfesting hefur því fengið að sitja á hakanum.

Í úrtaki greiningardeildarinnar voru 27 sveitarfélög, þar sem íbúafjöldi er meiri en 1500 manns. Um 94% af landsmönnum búa í þessum sveitarfélögum.