Baugur hefur ákveðið að fjárfesta í breska tískufyrirtækinu Matthew Williamson og hefja samstarf til að styðja við vöxt félagsins, samkvæmt upplýsingum frá Baugi.

Upphæð fjárfestingarinnar hefur ekki verið gefin upp, en tekið er fram að um minnihluta í félaginu sé að ræða.

?Við trúum því að þeir (Baugur) séu réttu samstarfsaðilarnir til að taka næsta vaxtarkippinn," segir Joseph Velosa, forstjóri og einn stofnenda Matthew Williamson. Velosa segir að tími sé kominn að styrkja félagið á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu.

Matthew Williamson er breskt fyrirtæki og er stjörnuverslun félagsins staðsett í Mayfair-hverfinu í London. Vörur félagsins eru einnig fáanlegar Harvey Nichols-verslunum í Hong Kong og Dubai, og í Le Printemps-stórversluninni í París og Al Othman-versluninni í Kúvæt.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga Baugs í Bretlandi, segir Matthew Williamson vera traust og þekkt fyrirtæki, sem hefur skilað jákvæðri afkomu frá stofnun. Sölutekjur fyrirtækisins námu átta milljónum punda í fyrra, sem samsvarar rúmlega einum milljarði króna.

Fjárfesting Baugs í fyrirtækinu er gerð í gegnum nýjan sjóð félagsins, sem kallast Venture Business Unit (VBU), og hefur fjárfest töluvert síðustu misseri í minni tískuvörumerkjum til að styðja áframhaldandi vöxt félaganna.