Baugur hvetur nú bresku verslunarkeðjuna Woolworths að selja afþreyingareininguna 2 Entertain, segir í frétt breska helgarblaðsins The Observer, án þess að geta heimilda.

Baugur á um 10% hlut í Woolworths, en 2 Entertain er í eigu Woolworths og BBC. Eignarhlutur Woolworhts nemur 40%.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur Baugur hins vegar ekki rætt um sölu á 2 Entertain við stjórnendur Woolworths. En fjárfestingabankinn Morgan Stanley leggur til að fyrirtækið skoði möguleika á að selja eininguna, sem sérhæfir sig í sölu á afþreyingarefni í stórmörkuðum, þar á meðal Woolworths.

Morgan Stanley telur að heildarverðmæti 2 Entertain geti verið í kringum 270 milljónir punda (36 milljarðar króna), sem er rúmlega helmingur heildarverðmætis Woolworths-samstæðunnar.

Heimildamenn Viðskiptablaðsins segja að með því að selja 2 Entertain geti Woolworths betur skerpt á verslunarrekstrinum.