Baugur leitar að kaupanda fyrir bresku lágvöru tískuverslunina MK One, sem er það fyrirtæki í eigu Baugs sem skilar einna mestu tapi, að því er segir í frétt Financial Times. Yfirmaður samskiptasvið Baugs, Sophy Buckley,  staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að til standi að selja félagið en gaf ekki færi á samtali við Gunnar Sigurðsson, forstjóra Baugs Group.

MK One rekur 172 verslanir og tapaði 17,4 milljónum punda (2,6 milljörðum króna) á síðasta ári, velta félagsins nam 118 milljónum punda (17,3 milljörðum króna).

Þessi sala er liður í því að Baugur einbeiti sér að stærri smásöluvörumerkjum í sinni eigu, sem eiga möguleika á að stækka á alþjóðlegum mörkuðum, segir í frétt Financial Times. Minni, ódýrari vörumerki eins og MK One, passi ekki nægilega vel með dýrari merkjum eins og til dæmis Karen Millen.

Talið er að önnur minni félög í eigu Baugs, tilheyri ekki lengur langtímaáformum félagsins, eins og til dæmis Julian Graves, sem sérhæfir sig í heilsufæði.

Baugur keypti ásamt fleirum MK One fyrir 55 milljónir punda (átta milljarðar króna), haustið 2004. Síðasta sumar sagði breska dagblaðið The Times frá því að Baugur hafi neyðst til setja rúmlega tvo milljarða króna til að rétta efnahag félagsins af og breytt 5,3 milljarða króna skuld í hlutafé (miðað við gengi krónu síðasta sumar).

Þar af hafi tæplega 8,5 milljarða skuld MK One við Landsbankann verið lækkuð í 3,7 milljarða og eftir skuldbreytinguna fari bankinn með 40% eignarhlut í félaginu. Miðað við að eignahlutur Landsbankans sé verðlagður í samræmi við skuldbreytinguna var heildarverðmæti MK One 12 milljarðar króna síðasta sumar.

Baugur Group hefur gengið í gegnum mikið endurskipulagningarferli að unfanförnu, seldi fyrr í mánuðinum hluti sinn í fjárfestinga- og fjármálafyrirtækjum annars vegar og fjölmiðla- og fjarskiptafélögum hins vegar, til félaga sem eru  reyndar- að stærstum hluta í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stærsta hluthafa Baugs.

Sú endurskipulagning kom í kjölfar sölu fasteignasafns félagsins Landic Property í árslok 2007 til FL Group.