Baugur og fjárfestingadeild Kaupþings banka hafa samþykkt að kaupa bresku tískuvöruverslunarkeðjuna Jane Norman fyrir 117.4 milljónir punda (13,4 milljarða íslenskra króna), samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Forstjóri Jane Norman, Saj Shah, mun einnig taka þátt í kaupunum, sem verða fjármögnuð að hluta til með eigin fé og lánum frá Kaupþingi banka, segja heimildamenn blaðsins. Orðrómur er um að nýstöfnuð fjárfestingadeild Kaupþings banka í London muni kaupa um 30-40% hlut í Jane Norman á móti Baugi.

Fyrrverandi eigandi Jane Norman, fjárfestingasjóðurinn Graphite Capital, keypti félagið árið 2003 á 70 milljónir punda.

Sérfræðingar segja að Jane Norman-keðjan sé arðbær og hefur félagið vaxið ört síðustu ár. Hagnaður félagsins jókst um 43% á árunum 1999-2002, eða úr 3,6 milljónum punda í 10,7 milljónir punda.

Fyrirtækið var stofnað árið 1952 af Norman Freed og skilaði um 14 milljón punda hagnaði á síðasta reikningsári, sem endaði í mars. Jane Norman stílar markaðssókn sína á konur í aldurshópnum 15-24 ára.