Orðrómur er um að hópur íslenskra fjárfesta hafi í síðustu viku keypt tæplega 3% hlut í bresku matvöruverslunarkeðjunni Sainsburys, sem hefur stuðlað að hækkun á gengi hlutabréfa fyrirtækisins. Talið er að fjárfestarnir hafi síðan aukið við hlut sinn, en kaupin eru þó enn ekki flöggunarskyld þar sem eignarhluturinn er undir 5%.

Líkt og oft áður er Baugur grunaður um kaupin, en einnig eru getgátur um að FL Group sé með í för. Saman tóku félögin stöðu í bresku stórverslunarkeðjunni Marks & Spencer í fyrra og seldu síðan með góðum hagnaði.

Gengi hlutabréfa Sainsburys hafði hækkað um 0,98% í tæp 439 pens hluturinn í gærmorgun og á föstudaginn, stuttu eftir að orðrómurinn fór á kreik, hækkuðu bréfin um 0,9%. Markaðsvirði félagsins er í kringum 7,5 milljarðar punda, sem samsvarar rúmlega eitt þúsund milljörðum króna.

FL Group hefur jafnt og þétt verið að auka fjárfestingargetu sína með ýmsum fjármálaverkfærum. Baugur hefur einnig töluverða fjárfestingagetu, en margir sérfræðingar telja Sainsburys þó of stóran bita fyrir Íslendingana. Hins vegar eru góðir möguleikar á að skuldsetja breska félagið verulega og fasteignir félagsins eru eftirsóknarverðar, segja greiningaraðilar. Reiknað er með að hugsanlegir kaupendur þurfi í kringum tvo milljarða punda í eigið fé til að kaupa félagið.

Breska verðbréfafyrirtækið Numis telur Sainsburys vera mest spennandi matvælakeðjuna og bendir á að virði fasteigna félagsins sé svipað og markarðsvirði félagsins. Baugur og samstarfsaðilar hafa notað fasteignir fyrirtækja sem þeir kaupa til að greiða kaupverð að hluta (e. sale and leaseback) og því mögulegt að fasteignsafnið geti auðveldað kaupin.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.