Héraðsdómur Reykjaness felldi í upphafi mánaðar úr gildi ákvörðun sýslumanns um að synja lögbannsbeiðni lyfjarisans Bayer á sölu og markaðssetningu lyfsins Rivaroxaban, sem Williams & Halls ehf. flutti inn og markaðssetti. Íslenska félaginu ber einnig að innkalla og fjarlægja allar pakkningar lyfsins úr apótekum.

Bayer hafði einkarétt á sölu lyfsins og sótti síðar um svokallað ábendingareinkaleyfi en slík leyfi byggja oftast á notkun lyfja gegn tilteknum sjúkdómum í stað skilgreiningar á formi þeirra. Sé fallist á slíkt leyfi gildir einkaleyfið lengur. Beiðnin var upphaflega samþykkt en einkaleyfið fellt úr gildi vorið 2020 eftir kröfu annarra framleiðenda þess efnis. Sú ákvörðun er núna í áfrýjunarmeðferð.

Á grunni þess taldi Williams & Halls sér heimilt að hefja sölu og markaðssetningu þess hér á landi en Bayer krafðist lögbanns. Sýslumaður synjaði um lögbannið þar sem ágreiningur væri uppi um gildi einkaleyfisins.

Í úrskurði héraðsdóms segir að þótt leyfið hafi verið fellt úr gildi erlendis þá hefði engin tilkynning, um að leyfið hafi verið afturkallað eða ógilt, verið birt hér á landi. Ákvörðun Evrópsku einkaleyfastofunnar frá í fyrra hefði því ekki áhrif hér enda hefði yfirstandandi andmælameðferð frestandi áhrif á gildistöku ákvörðunarinnar.

Lögvarinn réttur var því til staðar sem og athöfn sem stæði yfir. Þá féllst dómurinn ekki á að réttarreglur um skaðabætur fyrir röskun hinna lögvörðu hagsmuna gætu girt fyrir lögbannið enda var margt óljóst í þeim efnum, til að mynda umfang tjóns og hvort Williams & Halls hefði fjárhagslegt bolmagn til að greiða bætur ef til þess kæmi.

Af þeim sökum var fallist á lögbannið. Sýslumanni var falið að framkvæma það en Bayer verður að leggja fram tryggingu sem sýslumaður mat hæfilega ef það kæmi seinna í ljós að einkaleyfið lifði andmælameðferðina ekki af. Þá ber Williams & Halls að greiða 900 þúsund í málskostnað.