Á árunum 2008 til 2012 fengu íslenskir dómstólar alls 875 beiðnir um símhleranir frá saksóknara- og lögreglustjóraembættum landsins. Af þessum beiðnum var sex þeirra hafnað af dómstólum og tvær til viðbótar voru teknar til greina að hluta til. Alls voru því veittar 867 heimildir til símhlerunar á þessum fjórum árum, eða um 99,1% af beiðnum sem bárust. Kemur þetta fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn Bjarna Benediktssonar.

Í svari ráðherra er sérstök greining á beiðnum og heimildum sem embætti sérstaks saksóknara hefur fengið til símhlerana. Þar kemur fram að á árunum 2009 til 2012 óskaði embættið 116 sinnum eftir heimild til símhlerunar og var þeim beiðnum aldrei hafnað af dómstólum. Í raun voru beiðnirnar færri, en í tveimur tilvikum var í sömu beiðni óskað eftir heimild til að hlusta á samtöl fleiri en eins einstaklings.

Í 112 tilvikum var um að ræða hlerun á símum sakborninga og í fjórum tilvikum voru símar vitna hleraðir. Samkvæmt lögum ber að tilkynna þolanda símhlerunar um aðgerðina eins snemma og unnt er svo lengi sem það spillir ekki rannsókninni. Er athyglisvert að sjá að stysti tíminn sem liðið hefur frá hlerun til tilkynningar er einn mánuður, en lengsti tíminn er 26 mánuðir, eða rúm tvö ár. Ekki ætti að koma á óvart að síðara tilvikið varðar símhlerun sem fór fram í júlí 2009.

Ekki náðist í þolendur

Þá er í svari ráðherra samantekt á tilkynningum Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur fram að á árunum 2009 til 2011 hafði þolendum verið tilkynnt um 81 símhleranir, en ekki hafði verið tilkynnt um 32 aðgerðir. Í sundurliðun á ástæðum þess að ekki hafði verið tilkynnt um hleranirnar sést að algengast ástæðan er sú að mál var enn í rannsókn. Hins vegar hafði ekki náðst í þolendur í sjö tilvikum, sem er áhugavert í ljósi þess að ætla má að lögreglan hafi að minnsta kosti símanúmer viðkomandi.

Bjarni spurði m.a. um það hversu oft samskipti grunaðs manns og lögmanns hefðu verið hleruð á tímabilinu og hversu oft samskipti lögmanns við aðra en sakborninga verið hleruð. Í svari ráðherra kemur fram að ríkissaksóknari tekur fram að heimilt sé að framkvæma hlustun hjá lögmönnum eins og hverjum öðrum að uppfylltum lagaskilyrðum. Ekki verði séð hvaða tilgangi það þjóni að upplýsa sérstaklega um hlustanir sem beinist að þeirri starfsstétt. Þá bendir ríkissaksóknari á að samkvæmt lögum skuli eyððja þegar í stað gögnum sem hafi að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn.