Benedikt Hauksson hefur verið ráðinn til Aton.JL frá Kolibri þar sem hann starfaði sem teymisþjálfari og stafrænn ráðgjafi. Hann hefur einnig starfað sem viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Brandenburg og hönnunarstofunni Döðlum.

Benedikt starfaði um árabil í London sem markaðsráðgjafi á stafrænu markaðsstofunni Isobar þar sem hann vann meðal annars að stafrænni stefnumótun fyrir fyrirtæki á borð við Adidas, Budweiser, Kellogg's, Royal Bank of Scotland og Toyota.

Árið 2017 útskrifaðist Benedikt frá Hyper Island í Stokkhólmi með meistaragráðu í stafrænni stjórnun. Hann er sömuleiðis með BA gráðu í auglýsinga- og markaðsfræði frá University of the Arts í London.

„Ráðning Benedikts er liður í frekari uppbyggingu sérhæfðs ráðgjafateymis Aton.JL sem aðstoðar fyrirtæki í stafrænni vegferð þeirra og samskiptum við viðskiptavini og hagaðila. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa,” segir Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL.

Aton.JL er samskiptafélag sem varð til með samruna ráðgjafarstofunnar Aton og auglýsingastofunnar Jónsson & Lemacks. Félagið sérhæfir sig í ráðgjöf varðandi samskipti, stefnumótun, hönnun og markaðssetningu. Hjá Aton.JL starfa sérfræðingar með fjölbreytilegan bakgrunn sem gerir félaginu kleift að nálgast og skipuleggja samskipti viðskiptavina sinna með heildstæðum hætti. Aton.JL er til húsa að Tryggvagötu 10.