Samkeppniseftirlitið - Fundur Í Hörpunni
Samkeppniseftirlitið - Fundur Í Hörpunni
© BIG (VB MYND/BIG)

„Þetta var illa orðuð auglýsing. Við höfum aldrei selt viðtöl í blaðið,“ segir Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims og útgefandi Frjálsrar verslunar. Tölvupóstur hefur gengið manna á millum með auglýsingu fyrir blaðs Frjálsrar verslunar um áhrifamestu konurnar í atvinnulífinu og val á 100 áhrifamestu konum landsins. Af skeytinu má álykta að hægt sé að kaupa opnuviðtal með heilsíðuauglýsingu fyrir 180 þúsund krónur, opnuviðtal á 150 þúsund krónur og heilsíðuviðtal með heilsíðu auglýsingu fyrir 127 þúsund krónur.

Benedikt segist í samtali  við VB.is ekki um það að ræða að selja eigi sæti á lista blaðsins eða viðtal. Pósturinn sem hafi farið úr húsi hafi verið klaufalega orðaður. Benedikt, sem segist nýkominn til landsins, hafi eytt löngum tíma í síma við að leiðrétta misskilning sem sprottið hafi upp í kjölfarið.

„Menn geta keypt kynningar í þetta blað eins og í öllum okkar blöðum. En það er sérmerkt kynningarefni,“ segir Benedikt og áréttar að skeytið sem sent var út og efni blaðsins um áhrifamestu konur landsins hafi verið illa orðað og af því mátt skilja sem viðtöl séu til sölu. Það er ekki raunin, að hans sögn.