*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Innlent 29. ágúst 2018 11:05

Benedikt í stjórn Arion banka

Benedikt Gíslason mun hætta í stjórn Kaupþings og taka sæti í stjórn Arion banka á hluthafafundi næsta miðvikudag.

Ritstjórn
Benedikt Gíslason hafði umsjón með söluferli Kaupþings á fjórðungshlut í arion banka.
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Gíslason mun taka sæti Jakobs Ásmundssonar í stjórn Arion banka samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Benedikt verður kjörinn á hluthafafundi næsta miðvikudag, en Jakob lét af störfum í maí.

Benedikt er fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda við losun hafta, og hefur undanfarin tvö ár verið stjórnarmaður í Kaupþingi – sem á tæpan þriðjungshlut í Arion í gegn um dótturfélagið Kaupskil – en mun hætta þar á aðalfundi á morgun. Hann hafði umsjón með söluferli Kaupþings á fjórðungshlut í Arion sem seldur var í hlutafjárútboði í júní, og bankinn í kjölfarið skráður á markað.

Benedikt hefur einnig setið í stjórn tryggingafélagsins VÍS, og var framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs MP banka.

Heimildarmenn fréttablaðsins herma að Benedikt hafi stuðning Taconic Capital, sem á tæpan 10% hlut í Arion, og fer í sameiningu með Kaupþingi með 33% atkvæðarétt. Auk þeirra eru stærstu hluthafar bankans tveir erlendir vogunarsjóðir og bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs.