Almennt verð á bensínlítranum á Íslandi er nú orðið hærra en 300 krónur og hefur aldrei verið hærra en nú í krónum talið. Bensínverðið hérlendis hefur hækkað ört á undanförnum vikum í kjölfar innrásar rússneskra stjórnvalda í Úkraínu og hækkandi heimsmarkaðsverðs á hráolíu.

Verð á líter af bensíni hefur hækkað um tæpar 35 krónur frá áramótum og um 20 krónur frá því að Rússar lýstu yfir sjálfstæði héraðanna Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu þann 21. febrúar.

Sjá einnig: Bensínlítrinn nálgast 300 krónur

N1 hækkaði almennt verð á bensínlítra í dag um sex krónur og hefur því hækkað verð á bensínlítra um 22 krónur undanfarnar tvær vikur og kostar hann nú 303,9 krónur að því er kemur fram á vefnum Gasvaktin.

Hjá Olís er almennt verð á bensínlítra komið upp í 303,8 krónur. Bensínlítrinn er síðan kominn upp í tæpar 300 krónur hjá ÓB, Orkunni og Atlantsolíu. Ódýrast er bensínið hjá Costco Iceland, 255,9 krónur lítrinn.

Olíuverð á heimsmarkaði hefur hækkað ört að undanförnu eftir innrás Rússa í Úkraínu. Brent Norðursjávarhráolía stendur nú í 125 dölum á tunnu, en var í 79 dollurum í upphafi ársins. Tunna af hráolíunni fór hæst upp í rúmlega 130 dali, en hún hefur ekki verið hærri síðan árið 2008. Bandaríkin, Bretland og Evrópusambandið hafa öll lýst því yfir að þau ætli að vinda ofan af innflutningi á olíu frá Rússlandi.