Finnska flugfélagið Finnair sendi í gær frá sér tilkynningu um að afkoma fyrirtækisins fyrri hluta árs og fyrirsjáanlega árið á enda verði fyrir neikvæðum áhrifum á háu eldsneytisverði, ásamt því að minnkandi eftirspurn fólks eftir flugferðum muni einnig setja strik í reikninginn.

Verði tekjur fyrirtækisins í ár mun lægri en árið í fyrra.

Í lok mars sl. seldi FL Group tæplega 13% hlut sinn í Finnair fyrir 13,6 milljarða króna. Tapaði félagið á fjárfestingunni sem nam hátt á annan milljarð króna.

„Eldsneytisverð, sem nær stöðugt nýjum methæðum, ásamt minni eftirspurn eftir flugferðum á vordögum, hafa veikt hagnaðarvon Finnair … Miðað við núverandi horfur getum við gert ráð fyrir að afkoman fyrri helming árs og þar af leiðandi árið á enda verði verri en í fyrra,” sagði Jukka Hienonen, forstjóri Finnair í tilkynningu.

Bensín fyrir 600 milljónir dollara í ár

„Í byrjun árs kostaði flugvélabensín 850 dollara tonnið en er nú komið yfir 1300 dollara tonnið. Við eigum von á að eldsneytisútgjöld okkar stígi upp í ríflega 600 milljónir dollara fyrir allt árið, sem er meira en fjórðungur áætlaðrar veltu fyrirtækisins.

Í fyrra varði Finnair 440 milljónum evra í eldsneytiskaup. Eldsneyti er stærsti einstaki kostnaðarliður félagsins,” segir Jukka ennfremur.

Um 6% færri farþegar ferðuðust með Finnair í aprílmánuði en á sama tíma í fyrra.