Þorbjörn Atli Sveinsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir að túlka beri niðurstöður gjaldeyrisútboðs Seðlabankans af varfærni. Eftirspurn eftir ríkisskuldabréfunum hafi verið fremur lítil, um 72 milljónir evra, og niðurstöðurnar segi ekki mikið um framhaldið.

Þorbjörn segir að svo virðist sem nokkur áhugi hafi verið hjá lífeyrissjóðum að kaupa ríkisbréfin á genginu 210 krónur fyrir evru. Hinsvegar þurfi það ekki að endurspegla áhuga annarra fjárfesta á svo lágu evrugengi. Seðlabankinn sé í raun einungis að leiða saman kaupendur og seljendur; reynist lítill áhugi hjá öðrum hópnum útiloki það sjálfkrafa þátttöku hins hópsins. Hann segir jafnframt að áhugi Seðlabankans á frekari útboðum sé vel skiljanlegur. Mikilvægt sé þó að Seðlabankinn stígi frekari skref við afnám hafta og leiði saman fjölbreyttari hóp fjárfesta þar sem þetta útboð var einkum sniðið að lífeyrissjóðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.