„Þarna er verið að bera saman epli og appelsínur,“ segir Edvard G. Guðnason, viðskiptastjóri Landsvirkjunar, um samanburð greiningadeildar Arion banka á raforkuverði á evrópskum heildsölumarkaði og því verði sem Landsvirkjun býður stóriðju á Íslandi. Nánar er fjallað um markaðspunktana hér en þar er meðal annars bent á að rafmagnsverð í Evrópu hafi farið lækkandi og sé nú mun lægra en hér. Edvard telur samanburðinn óraunhæfan þar sem eðli viðskiptanna sé mjög ólíkt.

„Stundarverðið sem þeir nefna er bara verð eins og það gerist á augnabliki á skammtímamarkaði. Við erum að selja til stórra viðskiptavina sem tryggja sér rafmagn á fyrirfram umsömdu verði með langtímasamningum. Svo þetta er ekki alveg sambærilegt. “Edvard bendir jafnframt á að í áætlunum Landsvirkjunar, þar sem meðal annars er fjallað um sæstreng, sé horft til langs tíma. Þar sé fyrst og fremst verið að tala um orkuverð eftir árið 2020.

Í markaðspunktunum er einnig rætt um burði Landsvirkjunar til að bjóða fasta samninga til lengri tíma. Greiningardeildin segir þann kostinn aðlaðandi á ólgukenndum raforkumarkaði. „Það er því síður en svo útséð um að fyrirtæki geti hugsað sér að greiða verulegt álag ofan á hið tímabundna lága markaðsverð ársins fyrir fast verð í tólf ár eða lengur,“ segir í markaðspunktunum. Greiningardeildin segir þó Norðurlöndin vera í beinni samkeppni við Ísland um suman orkufrekan iðnað, t.d. gagnaver. „Samkeppnishæfni um orkuverð getur því skipt nokkru, ekki síst ef markmiðið er að knýja fram aukna fjölbreytni í hópi orkukaupenda og laða iðnað til landsins sem hefur úr fjölda starfstöðva að velja,“ segir Greiningardeildin.

Edvard leggur einnig áherslu á að Landsvirkjun hafi í gegnum tíðina náð að laða viðskiptavini hingað til lands. „Það eru líka fleiri atriði en verðið sem skipta máli. Til dæmis skattaumhverfi, flutningskostnaður, staða á mörkuðum og launakostnaður. Við erum til dæmis innan EES sem skiptir töluverðu máli þegar fyrirtæki velja sér stað,“ segir Edvard.