Íslenskar skáldsögur eru nú í þremur efstu sætum á metsölulista Eymundsson, og þarf örugglega að draga fram elstu menn til að muna annað eins að mati Hrafns Jökulssonar, sem skrifar um bækur í Viðskiptablaðið.

Höfundarnir eru Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir og Bergsveinn Birgisson. Ekki þarf að koma á óvart að kóngur og drottning glæpasögunnar skylmist á toppnum, en Bergsveinn er hinn óvænti sigurvegari jólabókaflóðsins. Eða hvaða greiningardeild hefði spáð því að bók um ástarmál gamals bónda myndi slá í gegn?

Hörkugóð vertíð

Þetta er hörkugóð vertíð fyrir íslenskar bækur. Í fjórða sæti er hin glæsilega bók Ara Trausta Guðmundssonar og Ragnars Th. Sigurðssonar um Eyjafjallajökul og í því fimmta situr ævisaga Gunnars Thoroddsen eftir Guðna Jóhannesson. Eyjafjallajökull er tvímælalaust einn af skúrkum ársins á heimsvísu, en Gunnar olli hinsvegar pólitískum jarðhræringum á Íslandi fyrir 30 árum þegar hann klauf Sjálfstæðisflokkinn.

Saga Gunnars er saga íslenskra stjórnmála í hálfa öld, en lesendur fá líka fágæta innsýn í hugarheim og sálarlíf hans. Listilega saman sett bók eftir frábæran höfund.

Bókin í sjötta sæti hefur sérstöðu, enda kemur fram í kynningu að hún sé beinlínis „gefin út fyrir eindregna hvatningu að handan“. Þetta er Sumarlandið eftir Guðmund Kristinsson en þar er að finna frásagnir um 40 einstaklinga á andláti sínu og hvað tekur við eftir dauðann. Árið 1978 trúðu 77 prósent Íslendinga á líf eftir dauðann og árið 1999 var hlutfallið komið upp fyrir 80 prósent. Það er því frjór jarðvegur fyrir bækur „að handan“ og í raun sætir furðu hve útgefendur hafa lítið sinnt þessum markaði.

Sumarlandið kemur út hjá Árnesútgáfunni, sem er einn af senuþjófum ársins í útgáfubransanum.

Gillz í Rithöfundasambandið

Hinn sprelllifandi Gillz hefur hreiðrað um sig í 7. sæti metsölulistans með kennslubók sinni í Lífsleikni. Gillz hefur nú loksins fengið þann draum uppfylltan að verða fullgildur félagi í Rithöfundasambandinu, en framganga hans á ritvellinum (og fjölmiðlum) hefur valdið nokkuð skoplegu hugarangri hjá sumum virðulegum kollegum hans í rithöfundastétt.

Kristín og Þóra Tómasdætur hitta greinilega þráðbeint í mark með bók sinni Stelpur, enda um að ræða „kraumandi viskubrunn um fjölmargt sem fylgir því að vera stelpa“. Bókin er nú í 8. sæti og á örugglega enn eftir að sækja í sig veðrið, hvort sem það verður nú á kostnað grallarans Gillz eða framliðnu viðmælendanna í Sumarlandinu.

Þorgrímur Þráinsson sýnir enn og aftur hve mikið fylgi hann hefur hjá ungu kynslóðinni. Hann sendir frá sér tvær bækur, sem báðar seljast í brettavís, og Þokan er nú í 9. sæti á lista Eymundsson. Þorgrímur, sem lék tuttugu landsleiki í fótbolta, er einstaklega markheppinn rithöfundur og virðist vera ungu kynslóðinni það sem Arnaldur er fullorðna fólkinu: Alveg ómissandi.

Það fer svo vel á því að Léttir réttir laumi sér í 10. sætið hjá Eymundsson en þeirri bók er beinlínis mokað út hjá Hagkaupi.