Hækkun heimsmarkaðsverðs á hráolíu að undanförnu ætti ekki að hafa farið framhjá neinum. Olía er mikilvægur orkugjafi og úr henni er m.a. unnið eldsneyti og hafa Íslendingar ekki farið varhluta af hækkun heimsmarkaðsverðs á bensíni og dísil en olía er nýtt í margt annað, svo sem við framleiðslu olíuborinnar malar, þ.e. malbiks. Af því má ráða að malbikunarkostnaður sumarsins mun að öllum líkindum verða umtalsvert hærri en í fyrra.

Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri malbikunarfyrirtækisins Hlaðbæjar-Colas hf., segir hækkunarþörfina fyrir blandað malbik hér á landi vera á bilinu 15-20% miðað við verðþróun undanfarinna mánaða en að hans sögn hefur stungubik hækkað um 30-35% á markaði í Rotterdam frá miðju sumri í fyrra. „Svo hækkar væntanlega fragtin á vörunni með hærra olíuverði en stungubik er flutt í upphituðum tankskipum til landsins,“ segir hann. Hann bætir því þó við að þar sem samkeppni sé hörð muni það væntanlega halda verðinu niðri. „Fyrirtæki í samkeppnisumhverfi, og þar sem 90% verkefna er háð tilboðum á opnum markaði í krísu, eru sérstaklega útsett fyrir slíku og hætt er við að sum þeirra lifi það ekki af,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.