Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) kynnti í morgun skýrslu um aðgerðaráætlun sem ætlað er að koma í veg fyrir að fyrirtæki í alþjóðlegum rekstri geti flutt hagnað sinn á milli landa og komist upp með að greiða lægri skatta en þeim ber. Breska dagblaðið Financial Times segir um málið á vef sínum að skattamál fyrirtækja verði í kastljósinu á fundi fjármálaráðherra 20 stærstu iðnríkja heims sem hefst á föstudag.

Í skýrslunni eru ríkisstjórnir heimsins hvattar til að snúa bökum saman og hamla því að fyrirtæki komist upp með að flytja tekjur undan skattayfirvöldum.

Financial Times hefur upp úr skýrslunni að meðalskattur á fyrirtæki innan aðildarríkja OECD hafi sveiflast nokkuð í gegnum tíðina. Hann hafi sem dæmi numið 8,8% árið 1965 og verið kominn niður í 7,6% árið 1975. Þrjátíu árum síðar, þ.e. árið 2007, hafi verið að jafnaði um 10,6%. Þeir voru víðast hvar lækkaðir í fjármálakreppunni og stóðu í 8,6% árið 2010.