"Árið sem er að líða er það besta í sögu fyrirtækisins með mestu veltu sem við höfum náð, yfir sjö milljarða króna og við höfum aldrei selt fleiri bíla." Þetta segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, en fyrirtækið fagnar um þessar mundir 40 ára afmæli. Grunnurinn að fyrirtækinu var lagður fyrir fjórum áratugum þegar tveir starfsmenn unnu á bílaverkstæði, en í dag eru starfsmennirnir orðnir um 112. "Það stefnir í að við seljum rétt um 1800 bíla á árinu og við erum að ná í fyrsta skipti þriðja sætinu á bílamarkaðnum," segir Egill. Markaðshlutdeild Brimborgar er nú 12,7% en Egill ætlar að sækja enn á markaðinn á næsta ári og stefnir að því að rjúfa 2000 bíla múrinn. Nánar í Viðskiptablaðinu í dag en Egill verður gestur í Viðskiptaþættinum á Útvarpi Sögu FM 99,4 sem hefst klukkan 16.

Í þættinum í dag verður einnig rætt við Ólaf Kr. Guðmundsson, formann LÍA, en allar líkur eru á því að fljótlega hefjist arðsemisathugun á því að reisa upphitaða akstursbraut á Suðurnesjum fyrir Formúlu eitt bíla.

Þá verður rætt við Lúðvík Halldórsson, veitingamann sem hefur hreiðrað um sig í einu nýjasta hverfi borgarinnar, Grafarholti, en þar hefur hann opnað stærðarinnar veitinga- og skemmtistað, Gullhamra. Við ætlum að athuga hvort skemmtanalífið sé öflugt í Grafarholti.