Einhver bið verður á að hinn nýi 25 kílómetra langi vegur um Arnkötludal, milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar, verði opnaður. Upphaflega átti að opna hann í lok ágúst, en þá var ekki búið að leggja bundið slitlag á veginn.

Töluvert hefur snjóað á Tröllatunguheiði síðasta sólarhringinn sem gerir vegagerðarmönnum erfitt um vik að ljúka því sem eftir er. Þar á t.d. eftir að setja upp vegrið og mála miðlínu. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar verður engin þjónusta varðandi mokstur eða annað tekin upp á nýja veginum fyrr en hann verður formlega opnaður fyrir umferð.

Miklar væntingar eru til opnunar vegarins, einkum á norðanverðum Vestfjörðum. Með þessari vegtengingu verður í fyrsta sinn hægt að aka á bundnu slitlagi alla leið á milli Reykjavíkur og Ísafjarðar.