Fyrirhugað er að skrá hlutabréf kínversku netverslunarinnar Alibaba í Bandaríkjunum. Erlendir fjármálasérfræðingar segja þetta heilmikil tíðindi og bera skráninguna við það þegar hlutabréf Facebook voru skráð á markað í maí fyrir að verða tveimur árum. Áætlað er að markaðsverðmæti fyrirtækisins muni nema 140 milljörðum dala, jafnvirði tæpra 16 þúsund milljarða íslenskra króna. Stefnt er að því að selja hlutabréf fyrir um 15 milljarða dala.

Greint var frá áformunum vestanhafs í gær.

Sex bankar munu koma að skráningarferlinu. Það eru bankarnir Citigroup, Credit Suisse, Deutsche Bank, Goldman Sachs Group, J P Morgan og Morgan Stanley.

Netverslunin var stofnuð árið 1999. Starfsmenn voru upphaflega 18 talsins. Þeir eru nú rúmlega 20 þúsund. Á meðal stærstu hluthafa netbúðarinnar er netrisinn Yahoo með 24% hlut og japanski bankinn Softbank Corp sem á 37%. Stofnendur Alibaba og fleiri stjórnendur verslunarinnar eiga saman um 13% í fyrirtækinu.