Ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins virðist hafa náð samkomulagi um hvernig haga eigi fyrirhugaðri sölu á eignum ríkisins í bönkunum tveimur, Landsbanka og Íslandsbanka samkvæmt nýrri eigendastefnu sem ríkisstjórnin hefur gefið út.

Kjarninn greindi fyrst frá en í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að helsta breytingin felist í því að skýra áform ríkisstjórnarinnar gagnvart einstökum félögum.

Þar kemur fram að nú sé stefnt að því að ríkið eigi verulegan eignarhlut í Landsbankanum til langframa, en í eigendastefnu ríkisins frá því í júlí 2017 sem samin var í stjórnartíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks með Viðreisn og Bjartri framtíð hafði verið gert ráð fyrir að sá hlutur yrði 34 til 40 prósent.

Í fyrri stefnu hafði jafnframt komið fram að bæði allur eignarhluturinn í Íslandsbanka og sá hluti sem selja ætti í Landsbankanum yrði seldur um leið og skilyrði til þess yrðu hagfelld, en nú segir að bíða eigi með að selja í Landsbankanum þangað til Íslandsbanki hafi verið seldur að fullu.

Loks eru forsendur fyrir eignarhaldi ríkisins í Landsbankanum breitt, úr því að vera til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfinu og tryggja nauðsynlega innviði þess en nú hefur verið bætt við:

„Markmiðið með eignarhaldinu er að stjórnvöld hafi ráðandi ítök í a.m.k. einni fjármálastofnun sem þjónustar almenning og fyrirtæki og hefur höfuðstöðvar hér á landi. Þannig tryggja stjórnvöld að almenn, vönduð og traust fjármálaþjónusta standi öllum til boða óháð m.a. búsetu.“