*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 23. september 2020 20:25

Biðlistar eftir jólahlaðborði

Pantanir hafa borist fyrr en venjulega í jólahlaðborð en óvíst er hversu margir munu komast að.

Ritstjórn
Guðrún Björk Geirsdóttir er veitingastjóri Vox á Hilton hótel Nordica og Ólafur Laufdal er eigandi hótelsins á Grímsborgum.
Aðsend mynd

„Ég myndi segja að þjóðin sé full bjartsýni á að framundan sé betri tíð. Það er mjög mikil eftirspurn eftir jólahlaðborðum, en augljóslega erum við að gefa allt út með fyrirvörum,“ segir Guðrún Björk Geirsdóttir, veitingastjóri á Vox í Hilton hótel Nordica, um óvissuna sem kórónuveirufaraldurinn skapar í skipulagi jólahlaðborða landans.

„Það vantar ekki áhugann, fólk vill bóka, en þetta snýst meira um hvað við getum staðið við. Það er ljóst að fólk er orðið þyrst í að komast út meðal fólks og gera eitthvað skemmtilegt. Eftirspurnin í brönsinn hérna er orðin mikill og það seldist mjög hratt upp á kampavínsdaga sem við vorum með á dögunum. Í eðlilegu árferði hefðum við haft þar tvöfalt meira sætaframboð, svo augljóslega er framlegðin mun minni með færri gestum. Einnig fellur til ýmis aukakostnaður þessa dagana, til dæmis spritt, hanskarnir og aukaþrif, sem fer ekki inn í verðmiðann.“

Guðrún Björk segir auðveldara að bóka einkahlaðborð á vegum fyrirtækja og félagasamtaka heldur en í almenna hlaðborðið. „Við erum með marga sali sem við getum brotið niður í mörg rými, þar sem við höfum getað staðfest bókanir, að því gefnu að ekki sé búið að lækka hámarkið niður fyrir 100,“ segir Guðrún Björk.

„Svo erum við með sal þar sem við höfum yfirleitt verið að selja 440 sæti, sem við þorum ekki að gera núna. Þar brugðum við því á það ráð að setja upp áhugalista, þar sem við tökum niður nöfn og svo látum við þá bara vita þegar nær dregur. Þar höfum við verið með dansleiki eftir hlaðborðið, sem óvíst er að verði af í ár.“

Bjartsýnn á rýmri reglur

Ólafur Laufdal, eigandi hótelsins á Grímsborgum, er bjartsýnn á að búið verði að rýmka hámarksreglurnar í desember.

„Við erum með rými fyrir 200 manns í einu og hér hefur alltaf verið smekkfullt, enda er ég alltaf með vinsælar sýningar með. Í fyrra komust 1.500 manns ekki að,“ segir Ólafur.

Hann segir pantanir hafnar fyrr en venjulega.„Það er gríðarlega mikið pantað nú þegar. Svo eru villibráðarhlaðborðin okkar í nóvember nánast uppseld.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Rætt er við framkvæmdastjóra Intellecta um rekstur félagsins sem á tuttugu ára afmæli á þessu ári.
  • Rýnt er í tölur Seðlabankans sem sýna m.a. verðþróun atvinnuhúsnæðis og að 18% fyrirtækjalána eru í greiðsluhléi eða vanskilum.
  • Launaþróun starfsmanna hins opinbera er skoðuð en forstjóri eins opinbers hlutafélags sker sig verulega úr.
  • Farið er yfir sögu og niðurstöðu baráttu Viðskiptablaðsins um að fá gögn um Lindarhvol í krafti upplýsingalaga.
  • Farið er itarlega yfir þróun flugmarkaðarins í heiminum og hvað liggur framundan hjá flugfélögunum.
  • Tvö rafbílafyrirtæki sem heita eftir einum og sama manninum hafa átt viðburðarríkt ár sem farið er yfir.
  • Nýr framkvæmdastjóri ÍMARK, Þóra Hrund Guðbrandsdóttir er tekin tali um nýja starfið og mataráhugann.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um sveitarfélög í vanda.
  • Óðinn skrifar um íbúðaverð, bankana og daga Dags á borgarstjórastóli.