Verulega hefur dregið úr kaupum bílaleiga á nýjum bílum í ár og segir Bílgreinasambandið að búast megi við enn meiri samdrætti. Ástæðan er sú að breytingar voru gerðar á vörugjöldum bílaleigubíla um síðastliðin áramót.

Bílgreinasambandið bendir á að bílaleigur hafi verið stærsti kaupandinn. „Fyrirséð er að kaupgeta bílaleiga mun dragast enn meira saman með ófyrirséðum afleiðingum fyrir bílainnflytjendur, ef ekkert er að gert.  Þessu til stuðnings má benda á að nýskráðir bílaleigubílar á árinu 2013 eru einungis 2% fleiri en árið 2006, þrátt fyrir gríðarmikinn vöxt í ferðaþjónustu og fjölgun ferðamanna til landsins. Hins vegar hefur bílaleigubílum miðað við fjölda í árslok hvors árs fjölgað  um 81% og liggur munurinn í því að gríðarleg aukning hefur orðið í skráningu á eldri bílum til bílaleigureksturs. Slíkir bílar eru  ógn við öryggi og vegfarendur á íslenskum vegum. Þeir eyða mun meira eldsneyti en nýrri árgerðir og ljóst  að útblástursmarkmið nást ekki jafn hratt og að er stefnt.,“ segir í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Í tilkynningunni hvetur Bílgreinasambandið stjórnvöld eindregið  til  að  færa til fyrri vegar þær reglur sem í gildi voru um vörugjöld af nýjum bílum til bílaleiga með því að hækka  afsláttarþak vörugjalda  í 1.250 þúsund krónur og framlengja til 1 árs svokallaða  6 mánaða reglu um mögulega endursölu á nýlegum bílaleigubílum. Bílgreinasambandið telur að slík breyting  muni ekki draga úr tekjum ríkissjóðs og að hliðaráhrif samfélagsins með hagkvæmari og öruggari bílum komi öllum til góða.