Sala nýjum bílum var drifin að mestu áfram af sölu á bílum til einstaklinga og fyrirtækja. Fjórðungur var til bílaleiga, að sögn Jóns Trausta Ólafssonar, formanns Bílagreinasambandsins. Hann hélt erindi á ársfundi sambandsins á Hótel Natura í gær.

Í erindi Jóns Trausta kom m.a. fram að 1.574 fólksbílar seldust á fyrstu 3 mánuðum ársins. Þá hafi á þriðja hundrað sendi- og vörubílar verið skráðir á fyrstu þremur mánuðum ársins. Það er hátt í tvöföldun á sölu miðað við sama tíma í fyrra.

„Það eru mörg jákvæð teikn á lofti þótt bílgreinin, eins og mörg atvinnustarfsemi í landinu, hafi siglt í gegnum ólgusjó. Á fyrstu þremur mánuðum ársins varð um það bil 20% söluaukning á nýjum bílum sem eru gleðitíðindi,“ sagði Jón Trausti og kom inn á að bílafloti landsmanna sé nú einn elsti bílaflotinn í Evrópu. Meðalaldur fólksbíla hér er um 13 ár.

Vill að stjórnvöld hjálpi til

Jón áréttaði mikilvægi þess að endurnýja bílaflotann. Það geti gerst með aðstoð stjórnvalda:

„Við viljum að þjóðin hafi tækifæri til að viðhalda þessari fjárfestingu með eðlilegri endurnýjun og þurfa stjórnvöld að sjá til þess að stöðugleiki ríki í kringum umhverfi bílgreinarinnar. Skattheimta þarf að vera eðlileg og í takt við það sem gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þá þarf að tryggja að vörugjöld af öryggisbúnaði bifreiða séu í lágmarki svo almenningur veigri sér ekki við nauðsynlegt viðhald á búnaði sem hefur úrslitavald þegar mest á reynir. Ein af þeim leiðum sem við höfum bent stjórnvöldum á er að styðja við förgun eldri bifreiða með því að hækka skilagjald sem er endurgreitt er þegar bílum er fargað í endurvinnslustöðvum, slíkt átak mun hafa jákvæð áhrif,“ sagði Jón Trausti.