Gengið hefur verið frá samningi um kaup Bílanausts hf. innflutningsfyrirtækinu Ísdekki ehf. Ísdekk ehf. er leiðandi fyrirtæki í innflutningi og sölu á hjólbörðum og áhöldum og tækjum fyrir hjólbarðaverkstæði. Félagið er umboðsaðili fyrir Michelin, Cooper og fleiri merki.

Seljendur eru Gúmmívinnustofan, Viðar Halldórsson, Jóhann Kristjánsson, auk fleiri smærri hluthafa. Jóhann hefur verið framkvæmdastjóri Ísdekks frá árinu 1997 og mun hann áfram stýra félaginu eftir söluna. Jóhann mun verða áfram hluthafi í félaginu eftir söluna.

Ísdekk var stofnað 1981 og helstu eigendur voru þá Gúmmívinnustofan, Sólning, Höfðadekk, Viðar Halldórsson ofl. Ísdekk er stærsta fyrirtæki landsins í sölu hjólbarða.

Þessi kaup eru í samræmi við stefnu Bílanausts að vera leiðandi fyrirtæki á sviði bíla- og iðnaðarvöru. Félagið stefnir að áframhaldandi fjárfestingum í arðbærum fyrirtækjum í sinni grein segir í tilkynningu félagsins.

Bílanaust er verslunarfyrirtæki stofnað 1962 af Matthíasi Helgasyni og er með 10 verslanir og 112 starfsmenn í dag. Nýlega festi Bílanaust kaup á húsnæðinu að Bíldshöfða 9 sem er 9.700 m2 húsnæði sem áður hýsti Hampiðjuna. Bílanaust mun flytja í hið nýja húsnæði á vordögum. Velta félagsins á árinu 2005 er áætluð 2,2 milljarðar króna.