Meirihluti borgarstjórnarmeirihlutans í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar hefur samþykkt tillögur um að lengja gjaldtöku og breyta verðum á bílastæðum í borginni að því er Morgunblaðið greinir frá. Ástæðan er sögð ónóg nýting bílastæðahúsa sem keppi við gjaldlaus stæði.

Samkvæmt stefnumörkunartillögunum sem vísað hefur verið til meðferðar hjá samgöngustjóra borgarinnar og umhverfis- og skipulagssviðs er lagt til að ekki verði lengur frítt að leggja í borginni á sunnudögum, lengja gjaldtökuna fram eftir degi á ákveðnum svæðum og hækka og lækka gjaldtökuna eftir atvikum á mismunandi svæðum.

Gunnlaugur Bragi Björnsson annar tveggja fulltrúa meirihlutans í stýrihóp um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum vísar í lélega nýtingu bílastæðahúsa sem röksemd fyrir breytingunum.

„Það hefur [...] verið ójafn leikur að vera með gjalskyld bílastæðahús en enga gjaldskyldu á svæðum í kring og það jafnvel á annatíma. Borgin þarf að fá nýtingu í bílastæðahúsin sem er nokkuð góð í flestum húsum yfir daginn en hrynur svo á kvöldin,“ segir Gunnlaugur.

Hámarkstími og engar undanþágur fyrir íbúa

Á ákveðnu svæði sem nær yfir kvosina, Laugaveg upp að Hlemm og Skólavörðustíg verður jafnframt innleiddur tveggja klukkustunda hámarkstími í stæðunum, en verðið á svæðinu fer jafnframt úr 370 krónum á klukkustund í 400 krónur klukkustund. Jafnframt munu kort sem veita íbúum á undanþágu ekki lengur gilda á svæðinu.

Tillögurnar voru eins og áður segir samþykktar af fulltrúum borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar, en fulltrúar flokkanna í minnihlutanum sátu hjá.

Þó vildu Sjálfstæðismenn fá lækkun á skammtímastæðum og þá á móti hækkun á langtímastæðum, Miðflokkurinn vildi að fyrstu 15 til 20 mínúturnar í bílastæðum yrðu gjaldfrjálsar, og Flokkur fólksins sagði að sífellt væri verið að koma höggi á bílaeigendur með ósanngjörnum aðgerðum meðan Strætó sé ekki fýsilegur kostur.