Hagfræðinga greinir mjög á um hversu mikil áhrif meira en 110 milljarða dala innspýting í formi skattaendurgreiðslna til heimila muni hafa fyrir bandaríska hagkerfið á þessu ári, en í vikunni fóru fyrstu ávísanirnar frá fjármálaráðuneytinu að berast.

Flestir hagfræðingar telja að greiðslurnar eigi eftir að ýta eitthvað undir hagvöxt á næstu þremur ársfjórðungum. En það er hins vegar engin samstaða um hvenær áhrifanna fer að gæta né heldur hversu lengi þau munu vara.

Sumir sérfræðingar, meðal annars Marcoeconomic Advisers og Goldman Sachs, halda því fram að skattaendurgreiðslurnar geti orðið til þess að auka hagvöxt um allt að tvö prósentustig á ársgrundvelli á þeim fjórðungi sem áhrifanna gætir mest.

Aðrir telja aftur á móti að áhrifin verði töluvert minni: Bank of America segir að hagvöxtur gæti aukist um eitt prósentustig á meðan Merrill Lynch telur nær að reikna með aðeins 0,5 prósentustigum.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .