Formenn Bílgreinasambandsins (BGS), Guðmundur Ingi Skúlason, og Rannsóknaseturs verslunarinnar, Eysteinn Helgason, hafa undirritað samning um að BGS komi að rekstri Rannsóknasetursins.

Bílgreinasambandið bætist þar með við þá aðila sem nú þegar koma að rekstri Rannsóknasetursins, en það eru viðskiptaráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, Samtök verslunar og þjónustu, og nokkur verslunarfyrirtæki.

Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Þá kemur fram að Rannsóknasetur verslunarinnar, sem rekið er við Háskólann á Bifröst, mun annast ýmsa vinnslu á tölfræðigögnum sem tengjast bílasölu og rekstri bílgreina í landinu.

Þar á meðal upplýsingar um sölu notaðra bíla, varahlutasölu auk sérstakra úttekta og greininga fyrir bílgreinina.

Bílgreinasambandið, sem meðal annars vinnur að bættri menntun fyrir bílgreinastarfsmenn, mun einnig njóta góðs af samstarfi við Háskólann á Bifröst til aukinnar menntunar fyrir starfsgreinina, segir á vef Rannsóknarseturs.