Skv. frétt á CNN mun Bill Gates draga sig smám saman út úr daglegri stjórn Microsoft og verða kominn í hlutastarf, eins og hann kallar það, árið 2008 auk þess sem hann mun gegna stöðu stjórnarformanns. Er þetta gert til að hann geti betur einbeitt sér að mannúðarmálum, en Gates og eiginkona hans, Melinda, halda úti umsvifamiklum velgjörðasjóði sem styður við margvísleg velferðarmál.

Gates sagði að þetta væri sér erfið ákvörðun, en hann telji að nú sé rétti tíminn fyrir hann að breyta áherslum í lífi sínu. Það væri mikill ábyrgðarhluti að deila út þeim fjármunum sem sjóðurinn ræður yfir, en í dag eru eignir hans metnar á USD 29,1 milljarð.

Þessi breyting kemur í kjölfar ráðningar Ray Ozzie á síðasta ári sem mun strax taka stöðu tækni- og hönnunarstjóra Microsoft. Undanfarið hefur Ozzie sinnt æ fleiri af þeim verkefnum sem venjulega hafa legið hjá Gates.

Bréf í Microsoft féllu um 0,4% þegar þetta var tilkynnt.