Í lok aprílmánaðar verður ævisaga Bill Gates gefin út. Sagan er þó ekki í hefðbundnu formi því um er að ræða teiknimyndasögu sem byggir á ævi Gates. Þetta kemur fram á vef fréttaveitunnar Reuters.

Líkt og flestum er kunnugt var Gates annar stofnenda Microsoft tölvufyrirtækisins og hefur hann lengi verið einn ríkasti maður heims. Teiknimyndasagan ber heitið „Bill Gates- Co-founder of Microsoft“, eða „Bill Gates- meðstofnandi Microsoft“. Teiknimyndasagan er gefin út af Bluewater productions en fyrirtækið hefur áður gefið út sambærilegar sögur um Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, og Steve Jobs, stofnanda Apple. Þá var gefin út bókin „GOOGLEdrengirnir“ sem fjallar, líkt og nafnið gefur til kynna, um stofnendur Google.

Í tilkynningu frá útgáfufyrirtækinu segir einn höfunda að það sé án efa margt líkt með þessum þremur mönnum, Gates, Zuckerberg og Jobs. Þá segir jafnframt að tilgangurinn með þessari óvanalegu ævisöguútgáfu sé að varpa ljósi á persónuleika þessara merku manna. Höfundar trúi því að dregin sé upp raunveruleg mynd af einstaklingunum og kunni sú mynd að vera ólík því sem margir búist við.