Þorsteinn R. Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkur segist hafa fulla heimild Innkauparáði borgarinnar um að ganga til samninga við félagið Dengsa, sem er í eigu Billboard ehf., um uppsetningu nýrra strætisvagnaskýla að því er Morgunblaðið segir frá.

„Ekki þarf frekari staðfestingar frá ráðum borgarinnar,“ segir Þorsteinn en þrjú önnur félög lýstu áhuga á verkefninu en eins og sagt var frá í Viðskiptablaðinu bauð enginn í uppsetningu strætóskýlanna í formlegu útboðsferli. „Þeir voru eini aðilinn sem treysti sér til að bjóða lágmarkið, 210 ný strætóskýli, þar af 50 með upplýsingaskjám, og til að uppfylla aðrar kröfur í útboðsgögnum.“

Þar með talið tók félagið AFA JCDecaux sem rekið hefur grænu biðskýlin í borginni frá árinu 1998 ekki þátt í útboðinu. Vésteinn G. Hauksson framkvæmdastjóri Billboard ehf. segir undirbúning að uppsetningu strætóskýlanna ganga vel og það sé nokkurn veginn komið á hreint hvaðan fyrirtækið muni fá nýju skýlin.

„Þetta er samningur til 15 ára,“ segir Vésteinn en fyrirtækið sem hann stýrir rekur fjölda LED auglýsingaskjáa og flettiskilta á höfuðborgarsvæðinu.

Stærsti eigandi Billboard er Ellert Aðalsteinsson með 50%, Birgir Örn Birgisson framkvæmdastjóri Pizza-Pizza ehf, sem rekur Domino´s á 37%. Samkvæmt ársreikningi frá árinu 2016 skiptast síðan 13% á milli Aðalsteins Péturssonar, sem er með 5%, Yevgeniya Solovyova með 5% og Kasi Consulting ehf. með 3%, en það félag er í eigu Jóns Óttars Birgissonar.