Rekstrarhagnaður móðurfélags Elkem fyrir afskriftir (EBITDA) lækkaði jafnvirði um 800 milljóna íslenskra króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs vegna framleiðsluvandræða í kísilverum Elkem á Íslandi og í Bjolvefossen í Noregi. Bilun búnaðar og óstöðug framleiðsla er sögð skýra vandann á Íslandi. Þetta kemur fram í uppgjöri Elkem fyrir síðasta ár.

Verð á kísil og kísiljárni hefur verið sögulega lágt undanfarið. Elkem slökkti á stærsta ofni verksmiðjunnar í ríflega þrjá mánuði og fækkaði starfsfólki um nærri tuttugu í sumar vegna lágs afurðaverðs.