Þeir sem þekkja til Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar í Vestamannaeyjum, bera honum vel söguna. Hann er vissulega umdeildur, kallar ekki allt ömmu sína og er óhræddur við að tjá skoðanir sínar við misjafna hrifningu þeirra sem á hlusta. Hann lætur lítið hagga sér og virðist alltaf vera til í hvaða baráttu sem er.

Og hann hefur heldur betur þurft að heyja harða baráttu um Vinnslustöðina. Skoðanir hans á aðgerðum yfirvalda í garð sjávarútvegsins eru öllum kunnar en þá hefur hann um árabil staðið í deilum við bræðurna Guðmund (kenndan við Brim) og Hjálmar Kristjánssyni, sem eru frá Snæfellsnesi eins og hann, en þeir eru minnihlutaeigendur í Vinnslustöðinni.

Sigurgeir Brynjar hefur verið ómyrkur í máli í garð þessara manna og ítrekað sakað þá um að hafa reynt að ná undirtökum í Vinnslustöðinni. Þeir hafa þó ekki haft árangur sem erfiði. Hvað sem síðar verður er ljóst að Binni í Vinnslustöðinni þarf að halda áfram að berjast, hvort sem er við minnihlutaeigendur í Vinnslustöðinni eða pólitíska herferð gegn sjávarútvegi.

Nánar er fjallað um Sigurgeir Brynjar í umfjöllun um fólk í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðinum tölublöð hér að ofan.